Gamanleikarinn Chevy Chase hefur yfirgefið gamanþættina Community, en aðdáendur leikarans sem fylgst hafa með honum undanfarið, vita að leikarinn hefur ekki verið allt of sáttur í þáttunum.
Þættirnir fjalla um hóp nemenda í öldungadeild framhaldsskóla í Greendale í Colorodo í Bandaríkjunum. Þátturinn er að sigla inn í sitt fjórða tímabil og hefur verið vel tekið af bæði gagnrýnendum og áhorfendum.
Chase leikur Pierce Hawthorne, einn nemendanna.
Brottför Chase ætti ekki að koma neinum á óvart þar sem hann hefur marg lýst því yfir að hann væri hugsanlega á förum, enda alls ekki sáttur við þættina og sagði m.a. The Huffington Post nú í haust: „Þetta voru stór mistök. Ég hékk þarna eiginlega af því að ég á þrjár dætur og eiginkonu, og ég þarf að vinna til að geta séð fyrir þeim eins og þær vilja ….”
Hér eru valin atriði með Chase úr þáttunum:
Chase hefur einnig lent upp á kant við höfund þáttanna sem nú er hættur líka, Dan Harmon, auk þess sem sagt er að Chase hafi ekki verið ánægður með í hvaða átt persóna hans í þátttunum stefndi. Fjórða serían verður frumsýnd 7. febrúar í Bandaríkjunum og Chase verður í flestum þátttanna 13, enda er búið að taka seríuna upp.