Catching Fire til Rómar 8 dögum á undan USA

Kvikmyndin The Hunger Games: Catching Fire verður sýnd á áttundu alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Róm á Ítalíu þann 14. nóvember nk., samkvæmt frétt í kvikmyndaritinu Variety.

hunger 2

Myndin, sem beðið hefur verið eftir með mikilli eftirvæntingu, eftir að fyrsta myndin, The Hunger Games, sló í gegn, mun verða sýnd utan keppni, átta dögum áður en hún verður frumsýnd í Bandaríkjunum og þremur dögum eftir heimsfrumsýninguna í Lundúnum.

Aðalleikararnir Jennifer Lawrence, Josh Hutcherson og Liam Hemsworth munu mæta á „rauða teppið“ í Róm. Hátíðin stendur frá 8. – 17. nóvember.

Greinendur á Wall Street hafa spáð því að Catching Fire muni þéna 900 milljónir Bandaríkjadala á heimsvísu, sem yrði þónokkuð meira en fyrri myndin, sem þénaði 691 milljón dala.

Myndin, sem leikstýrt er af Francis Lawrence, mun fara í almennar sýningar á Ítalíu þann 27. nóvember.

Myndin hefst eftir að Katniss Everdeen kemur heim til sín eftir að hafa unnið 74. árlegu Hungurleikana ( Hunger Games ), ásamt félaga sínum Peeta Mellark. Sigur þýðir að þau verða núna að fara í sigurferð um landsvæðin ( districts ) og skilja vini sína og fjölskyldur eftir heima. Í ferðinni skynjar Katniss að uppreisn er í aðsigi, en The Capitol stendur samt traustum fótum og Snow forseti er að undirbúa 75. árlegu Hungurleikana ( The Quarter Quell ) – sem er keppni sem getur breytt landinu Panem til framtíðar.

 

The Hunger Games myndirnar eru byggðar á þremur skáldsögum Suzanne Collins, sem hafa selst í meira en 50 milljónum eintaka í Bandaríkjunum einum saman.

Þriðja og síðasta myndin mun heita The Hunger Games: Mockingjay.