Cara Dune leikföng tekin af markaðnum

Framleiðsla á leikföngum sem tengjast persónunni Cara Dune úr Stjörnustríðsþáttunum The Mandalorian hefur verið stöðvuð. Þetta kemur í kjölfar brottreksturs leikkonunnar Ginu Carano eftir að hún líkti ofsóknum gyðinga í Þýskalandi á fjórða áratugnum við stöðuna í bandarískum stjórnmálum. Talsmaður Lucasfilm tjáði fréttamiðlinum Variety að ummæli Carano væru hræðilegar og ólíðandi. 

Á vef The Hollywood Reporter segir að leikfangafyrirtækið Hasbro hafi tafarlaust tekið þá ákvörðun að hætta framleiðslu á fleiri fígúrum, nánar til tekið þeim sem tengjast The Black Series leikfangalínunni eftirsóttu. Umrædd sería var fyrst verið afhjúpuð árið 2020 og seldust fljótt upp eintökin af helstu persónum þáttarins, Cöru Dune á meðal þeirra. Í kjölfar gagnrýninnar og logandi netheima þykir líklegt að flestar gerðir leikfanga tengdum persónunni verði fjarlægðar úr hillum víða um heim.

Carano birti færslurnar umdeildu á Instagram-síðu sinni og hafði lengi verið gagnrýnd á samfélagsmiðlum sínum. Auk ofantaldra fullyrðinga birti fyrrum bardagakappinn einnig færslu þar sem efast er um að Jeffrey Epstein hafi fyrirfarið sér í fangaklefa sínum og gerði Carano einnig grín að grímunotkun íbúa Kaliforníu í COVID-19 faraldrinum. Síðar eyddi hún flestum færslunum.

Framleiðsla á þriðju þáttaröð The Mandalorian er þegar hafin og stóð áður til að Dune myndi bregða þar fyrir á ný. Umboðsskrifstofa Carano sagði einnig samningi hennar upp.