Síðast þegar leikarinn Nicolas Cage og leikstjórinn Mike Figgis rugluðu saman reitum var það í verðlaunamyndinni Leaving Las Vegas, en hún fékk fjórar tilnefningar til Óskarsverðlauna og Cage fór heim með Óskarinn fyrir bestan leik í aðalhlutverki.
Það ætti því ekki að koma á óvart að Cage vilji vinna aftur með Figgis, en hann hefur einmitt skrifað undir samning um að leika í næstu mynd Figgis; Exit 147.
Í myndinni eru sagðar nokkrar sögur samtímis en við sögu koma m.a. lögreglumaður með óvenjulega réttlætiskennd ( Cage ) og kona sem flýr frá ofbeldisfullum kærasta. Þau, og fleiri til, flækjast inn í sadíska sálfræðileiki.
„Þetta er svona saga sem maður sér ekki svo oft. Þetta er fullkomið hlutverk fyrir Nicolas, og ég hlakka til að vinna aftur með þessum frábæra leikara,“ sagði Figgis við Variety.
Tökur eiga að hefjast í janúar nk.
Cage hefur að undanförnu verið að leika í mynd Oliver Stone, Snowden, auk þess sem hann mun sjást á næstunni í myndunum The Trust, The Runner og Army Of One.