Þó það sé erfitt að trúa því í dag, þegar Óskarsverðlaunahafinn Nicolas Cage virðist taka nánast hvaða hlutverki sem býðst ( Left Behind, Season of the Witch osfrv. ), þá hafnaði hann hlutverki í risastórri mynd á sínum tíma. Sú er þó raunin, en Cage hefði getað leikið hlutverk Aragorn í Lord of the Rings þríleiknum, sem er ein vinsælasta kvikmyndasería sögunnar.
Mögulega hefði það orðið stærsta hlutverk hans á ferlinum.
Cage upplýsti í samtali við bandaríska tímaritið Neewsweek að sér hafi ekki litist á hlutverkið þar sem tökur áttu að standa lengi yfir og fara fram langt frá heimahögunum.
„Það voru allskonar hlutir í gangi hjá mér í einkalífinu á þessum tíma sem komu í veg fyrir að ég gæti ferðast svona langt og verið að heiman í þrjú heil ár.“
Eins og flestir vita þá fóru tökur þríleiksins fram í Nýja Sjálandi, og tóku þrjú ár undir stjórn leikstjórans Peter Jackson. Myndirnar í seríunni heita: Fellowship of the Ring, The Two Towers og The Return of The King og voru sýndar á árunum 2001, 2002 og 2003.
Cage segist í raun ekki sjá eftir ákvörðuninni, en Viggo Mortensen fékk hlutverkið á endanum.
Cage sér björtu hliðarnar á ákvörðuninni: „Málið er að ég horfi aldrei á mínar eigin myndir, og get því notið þess núna að horfa á þessar myndir,“ segir Cage sem er sjálfur mikill aðdáandi teiknimyndasagna og ævintýrabóka.
„Ég sé í raun aldrei eftir neinu. Ég held að það sé tímasóun. Ég reyni frekar að horfa fram á veginn, í stað þess að dvelja í fortíðinni og hugsa um eitthvað sem hefði getað orðið. Það eru pottþétt ýmsar myndir sem ég hefði líklega grætt á að gera ef aðstæður í lífi mínu hefðu ekki komið í veg fyrir það.“