Óskarsverðlaunaleikaranum Nicolas Cage hefur verið boðið hlutverk Ronald Reagan fyrrverandi Bandaríkjaforseta í væntanlegri bíómynd. Sagt er að hann sé þó hikandi við að taka hlutverkið að sér þar sem hann hafi áhyggjur af því hvernig forsetinn komi fyrir í myndinni.
Sagt er að leikarinn óttist að ferill sinn beri skaða af ef hann þurfi að leika Reagan í of jákvæðu ljósi, að því er Page Six vefsíðan greinir frá.
Talsmaður Cage, Stephen Huvane, vísar fregninni þó á bug, og segir að myndin sé enn allt of stutt komin í framleiðsluferlinu til að hægt sé að ræða hana í smáatriðum.
Fátt fleira er vitað um myndina, og til dæmis er ekki vitað hver komi til með að leikstýra, skrifa handrit eða leika á móti Cage, taki hann hlutverkið að sér.
Ýmsar myndir um Reagan eru í skoðun og vinnslu þessi misserin, meðal annars gamanmynd þar sem grínistinn Will Ferrell ætlaði að leika forsetann eftir að hann var orðinn veikur af Alzheimer hrörnunarsjúkdómnum. Börn Reagan brugðust ókvæða við þeim fregnum, enda barðist forsetinn við sjúkdóminn í 10 ár áður en hann lést. Ferrell hætti við þátttöku í myndinni á endanum.
Stuttserían Killing Reagan, sem byggð var á bók Bill O’Reilly, var einnig sýnd fyrr á þessu ári í sjónvarpi í Bandaríkjunum. Tim Matheson fór þar með hlutverk Reagan og Sex in the City stjarnan Cynthia Nixon lék eiginkonu hans Nancy Reagan.