Leikstjórinn Tim Burton ( Planet of the Apes ) mun næst taka að sér að leikstýra kvikmyndinni Big Fish. Er hún afturhvarf til örlítið persónulegri mynda en Burton er búinn að vera að fást við nýlega, en hann hefur undanfarið aðallega verið í stórum stúdíómyndum. Big Fish fjallar um mann einn sem snýr aftur í heimabæ sinn til þess að kveðja dauðvona föður sinn. Þegar þangað er komið, langar manninn gríðarlega til þess að kynnast föður sínum betur og fer því að reyna að komast til botns í öllum þeim furðulegu sögum og ævintýrum sem faðir hans sagði honum í æsku, í von um að varpa skýrara ljósi á lífshlaup hans. Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Daniel Wallace, og handritið er skrifað af John August ( Go ). Framleiðandi Planet of the Apes , Richard Zanuck, sannfærði Burton um að þetta væri besta skref sem hann gæti tekið, og skrifað var undir samninginn í síðustu viku. Columbia kvikmyndaverið er afar spennt fyrir verkefninu, og hefur hún verið sett í hraðgír. Búast má við fréttum á næstunni um hvaða leikarar muni prýða myndina.

