Framleiðandinn og handritshöfundurinn Nic Pizzolatto sagði frá því í útvarpsviðtali á dögunum að það yrðu þrjár aðalpersónur í annarri þáttaröð af True Detective. Fyrsta þáttaröðin fékk einróma lof gagnrýnenda og skartaði þeim Matthew McConaughey og Woody Harrelson í aðalhlutverkum.
„Allar persónurnar eru nýjar, en ég er svo innilega ástfanginn af þeim. Við erum búnir að setja þáttaröðina upp og við munum væntanlega fara í það á næstunni að finna leikara.“ sagði Pizzolatto.
Fyrsta þáttaröðin gerðist í Lousiana, en að þessu sinni mun hún gerast í Kaliforníu, þó ekki í Los Angeles. „Við viljum að þættirnir gerist á afskekktari stað heldur en í stórborg, því við viljum ná fram sömu stemningu og í fyrstu þáttaröðinni.“ sagði Pizzolatto að lokum.
Talið er að þættirnir muni einbeita sér að kvenpersónum að þessu sinni og hefur leikkonan Jessica Chastain verið orðuð við eitt af aðalhlutverkunum. Hvorki McConaughey né Harrelson munu snúa aftur.
True Detective var frumsýndur með látum á HBO kapalsjónvarpsstöðinni bandarísku í janúar síðastliðinn. 2,3 milljón áhorfendur sáu fyrsta þáttinn sem þýðir að um er að ræða bestu frumsýningu sjónvarpsþáttar á sjónvarpsstöðinni síðan fyrsti þáttur Boardwalk Empire laðaði 4,8 milljón áhorfendur að viðtækjunum árið 2010.