Þrívíddarklámmynd slær aðsóknarmet Avatar

Klámmynd frá Hong Kong ,sem sögð er vera fyrsta þrívíddarklámmyndin, sló aðsóknarmet stórmyndarinnar Avatar á fyrsta degi í bíóhúsum í Hong Kong. Myndin, sem heitir 3-D Sex and Zen: Extreme Ecstasy, þénaði 2,8 milljónir Hong Kong dala, eða 360 þúsund Bandaríkjadali, á frumsýningardaginn sem var í síðustu viku, að því er kynningarfulltrúi myndarinnar sagði AFP fréttastofunni. Fyrra met Avatar var 2,6 milljónir Hong Kong dala.

Allt í allt eru tekjur af sýningu myndarinnar nú orðnar 15 milljónir Hong Kong dala.

Myndin er lauslega byggð á sígildu kínversku erótísku bókmenntaverki, og meðal helstu atriða í myndinni er kynsvall, makaskipti og gróf kynlífsatriði.

Sögusvið myndarinnar er Ming tímabilið í Kína, og segir myndin af ungum manni sem, eftir að hafa kynnst erótískum heimi aðalsmanns, uppgötvar að fyrrum eiginkona hans er stærsta ást lífs hans.

Með aðalhlutverk í myndinni fara klámmyndaleikkonurnar japönsku Yukiko Suo og Saori Hara.

Myndin var frumsýnd í Taiwan á föstudaginn síðasta, og hefur vakið sterk viðbrögð víða í Asíu, þar á meðal í Japan og Suður-Kóreu, sem og í Evrópu og í Bandaríkjunum, að sögn framleiðanda myndarinnar.

Ferðaskrifstofur munu að sögn hafa boðið upp á sértakar ferðir til Hong Kong og Taiwan frá Kína, til að sjá myndina, en kínversk lög leyfa ekki sýningu myndarinnar þar í landi.

Fleiri framleiðendur eru með þrívíddarklámmyndir í framleiðslu, en 3-D Sex and Zen: Extreme Ecstasy náði að verða sú fyrsta til að komast í bíó.

Þrívíddarklámið er einnig á leið til Evrópu, því ítalski leikstjórinn Tinto Brass hyggst endurgera hina sígildu erótísku mynd Caligula frá árin 1979, í þrívídd, auk þess sem Hustler hyggst gera þrívíddar-klámútgáfu af Avatar.