James Franco, Rachel McAdams, Jeff Bridges, Marion Cotillard, Benicio Del Toro og Paul Giamatti eru öll á meðal leikara sem hafa ráðið sig til að tala fyrir persónur í nýrri kvikmyndagerð af Litla prinsinum, hinni sígildu frönsku skáldsögu eftir Antoine de Saint-Exupery, sem er mörgum Íslendingum að góðu kunn.
Eins og þessi leikaralisti sýnir berlega, þá er valinn maður í hverju rúmi, og til dæmis eru í hópnum þrír nýlegir Óskarsverðlaunahafar, þau Bridges, Cotillard og Del Toro.
Mark Osborne, leikstjóri Kung Fu Panda, leikstýrir, og framleiðandi er Aton Soumache hjá fyrirtækinu Onyx Films´.
Litli prinsinn fjallar um flugmann sem brotlendir í Sahara eyðimörkinni og hittir þar lítinn dreng sem segist vera prins sem hefur fallið til Jarðar frá heimili sínu á smástirni uppi í geimnum. Á meðan flugmaðurinn gerir við vél sína þá segir prinsinn litli honum sögur um heimili sitt og fávísa íbúa nærliggjandi smástirna.
Bridges mun tala fyrir flugmanninn, en ekki hefur verið sagt frá því hvaða hlutverk aðrir leikarar hafa í myndinni.
Bókin, sem heitir á frummálinu Le Petit Prince, kom út árið 1943 og hefur verið þýdd af frönsku á fjölda tungumála, þar á meðal íslensku. Bókin sló í gegn vegna heimspekilegs inntaks síns, sem náði bæði til barna og fullorðinna.
Gerðar hafa verið bæði kvikmyndagerðir og sjónvarpsmyndir eftir bókinni nokkrum sinnum. Paramount kvikmyndafyrirtækið gerði til dæmis kvikmynd eftir sögunni árið 1974 sem leikstýrt var af Stanley Donen.
Ekki er lengra síðan en árið 2010, að gerðir voru sjónvarpsþættir í Frakklandi eftir bókinni.