Rob Cohen – leikstjóri xXx og aðalframleiðandi framhaldsmyndarinnar – er mikið búinn að vera í viðtölum nýlega í sambandi við xXx: State of the Union. Þar talaði hann m.a. um möguleika á annarri xXx-mynd, nema líkt og þegar Vin Diesel ákvað að snúa ekki aftur fyrir framhaldið þá er búið að staðfesta það að Ice Cube muni heldur ekki mæta aftur til leiks. Eftir að hugmyndin datt út um að hafa Diesel áfram sem titilkarakterinn (og kom til greina að hafa þetta að nokkurs konar nútíma Bond-seríu) var stefnu seríunnar breytt og ákveðið var að láta myndirnar fjalla meira um njósnir heldur en einn ákveðinn gaur. Ný meginpersóna mun þar af leiðandi skjóta upp kollinum í hverri mynd.
Cohen sagðist endilega vilja hafa kvenkyns hetju í þriðju xXx myndinni. Hann segir að fyrstu tvær myndirnar hafa komið testósterón-flæðinu vel til skila og að nú sé kominn smá tími til að breyta og leyfa kvenkyninu að njóta orkunnar á sama máta. Cohen mun leikstýra þessari þriðju mynd, en hún fer að sjálfsögðu ekki í framleiðslu nema State of Union standi undir væntingum framleiðenda í miðasölunni, en hún er frumsýnd í lok mánaðarins.

