Breytti tönnunum fyrir kvikmyndahlutverk

Rogue One: A Star Wars Story leikkonan,Felicity Jones, segir í nýju viðtali að hún hafi breytt tönnunum í sér til að leika bandaríska hæstaréttardómarann Ruth Bader Ginsburg í nýrri mynd um ævi hennar og störf, On the Basis of Sex.

Leikkonan, sem er 35 ára gömul, sagði í samtali við breska spjallþáttastjórann Graham Norton að hún hefði verið óörugg um sínar „bresku tennur“ áður en hún tók hlutverkið að sér. „Ég horfði aftur og aftur á Ruth, og hún var með þessar fullkomnu bandarísku tennur, og svo horfði ég á mínar, sem eru mjög breskar, og eilítið skakkar, þannig að ég lét sverfa mestu agnúana af þegar ég byrjaði að leika í kvikmyndinni.

Þetta hljómar sársaukafullt, en þetta var ekkert svo slæmt.“

On the Basis of Sex er ekki komin með frumsýningardag á Íslandi, en hún var frumsýnd í Bandaríkjunum í janúar sl.