Skriðdrekamyndin Fury trónir á toppi vinsældarlista helgarinnar yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum landsins, en í helstu hlutverkum eru Brad Pitt, Shia Labeouf og Michael Peña.
Myndin gerist í lok Seinni heimsstyrjaldarinnar, nánar tiltekið í apríl árið 1945. Bandamenn eru að færa sig lengra og lengra inn í Evrópu. Vígamóður liðþjálfi að nafni Wardaddy, sem Pitt leikur, er yfirmaður skriðdreka með fimm hermenn innanborðs, sem fer í lífshættulegan leiðangur yfir víglínuna. Þar lendir Wardaddy í miklu ofurefli liðs og menn hans þurfa að berjast hetjulegri baráttu til að ná að sigra óvininn.
Nýjasta kvikmynd David Fincher, Gone Girl, situr í öðru sæti aðra vikuna í röð. Það er Óskarsverðlaunahafinn, leikstjórinn, leikarinn og handritshöfundurinn Ben Affleck sem leikur aðalhlutverkið í myndinni. Affleck fer með hlutverk eiginmanns konu sem hverfur daginn sem þau eiga fimm ára brúðkaupsafmæli, og allt bendir til að hann hafi myrt hana.
Íslenska spennumyndin Borgríki 2 – Blóð hraustra manna er í þriðja sæti, en hún var á toppi listanst í seinustu viku. Myndin fjallar um Hannes, metnaðarfullan lögreglumann, sem lendir á hálum ís þegar hann hefur rannsókn á yfirmanni fíkniefnadeildar lögreglunnar eftir ábendingu frá fyrrverandi glæpaforingja sem situr inni.Með helstu hlutverk í myndinni fara Ingvar Eggert Sigurðsson, Hilmir Snær Guðnason, Sigurður Sigurjónsson, Zlatko Krickic, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Darri Ingólfsson.