Borgríki 2 – Blóð hraustra manna, nýjasta kvikmynd Ólafs de Fleur Jóhannessonar, hefur verið valin til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Rotterdam í Hollandi. Þetta segir í fréttatilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Um er að ræða alþjóðlega frumsýningu myndarinnar þar sem þetta verður fyrsta hátíðin sem myndin mun taka þátt á eftir að hafa verið frumsýnd þann 17. október sl. í Háskólabíói. Hátíðin mun fara fram frá 21. janúar til 1. febrúar. Valið á Rotterdam hátíðina er mikill heiður, enda er hátíðin ein fárra svokallaðra „A“ kvikmyndahátíða í heiminum.
Borgríki 2 – Blóð hraustra manna mun taka þátt í „Spectrum“ hluta Rotterdam hátíðarinnar. „Spectrum“ hlutinn leggur áherslu á að sýna nýjar kvikmyndir í fullri lengd eftir kvikmyndagerðarmenn sem aðstandendur hátíðarinnar telja að hafi lagt til mikilsverð framlög til alþjóðlegrar kvikmyndamenningar. Ein af fyrri myndum Ólafs, Stóra planið, var valin til þátttöku á hátíðinni árið 2009.
Myndin er sjálfstætt framhald spennumyndarinnar Borgríki sem kom út árið 2011 og segir frá Hannesi, metnaðarfullum yfirmanni innra eftirlits lögreglunnar, sem ákveður að rannsaka Margeir, spilltan yfirmann í fíkniefnadeild lögreglunnar með það fyrir augum að ráða einnig niðurlögum stórra glæpasamtaka.
Borgríki 2 – Blóði hraustra manna er leikstýrt af Ólafi de Fleur Jóhannessyni en hann skrifar einnig handritið að myndinni ásamt Hrafnkeli Stefánssyni. Myndin er framleidd af Kristínu Andreu Þórðardóttur, Ólafi de Fleur Jóhannessyni og Ragnari Santos fyrir Poppoli Kvikmyndir. Í aðalhlutverkum eru Darri Ingólfsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Sigurður Sigurjónsson, Zlatko Krickic og Hilmir Snær Guðnason.
Sölufyrirtækið Celluloid Dreams, sem staðsett er í Frakklandi, tryggði sér alheimsrétt á myndinni árið 2012 í kjölfar velgengni fyrri myndarinnar. Celluloid Dreams annast alla sölu á á erlendum vettvangi í samstarfi við kanadískt sölufyrirtæki sem heitir Mongrel International. Nú þegar hefur myndin verið seld til Synergy Cinema í Frakklandi og Mónakó og Alcine Terran í Japan.
Fyrri myndin, Borgríki, hefur verið seld til 42 landa og er í endurgerðarferli í Bandaríkjunum.