Franska leikkonan Léa Seydoux er sögð hafa tekið að sér hlutverk nýju Bond-stúlkunnar í nýjustu James Bond-myndinni og mun þ.a.l. feta í fótspor Teri Hatcher, Halle Berry, Denise Richard og Ursulu Andress.
Seydoux hefur áður leikið í myndum á borð við Blue is the Warmest Color, Mission Impossible: Ghost Protocol og Inglourious Basterds. Leikkonan hefur einnig gert það gott í heimalandinu og unnið fjölmörg verðlaun á ferlinum þrátt fyrir ungan aldur.
Daniel Craig mun snúa aftur í hlutverki James Bond og verður þetta í fjórða sinn sem hann fer með hlutverk njósnara hennar hátignar. Sam Mendes mun einnig snúa aftur í leikstjórnarstólinn.
Stefnt er að frumsýningu í Bretlandi þann 23. október 2015 og í Bandaríkjunum 6. nóvember sama ár.