Breski kvikmyndaleikarinn Daniel Day-Lewis hefur leikið mjög fjölbreytt hlutverk í gegnum tíðina. Nægir þar að nefna Abraham Lincoln Bandaríkjaforseta og hlutverk hins fjölfatlaða Christy Brown í My Left Foot.
Breski rithöfundurinn William Boyd, höfundur nýjustu James Bond bókarinnar Solo, hefur trú á að Day-Lewis gæti orðið góður í hlutverki James Bond, ef svo færi að gerð yrði mynd eftir Solo.
„Í rauninni líkist hann Bond sem [ höfundur James Bond, Ian ] Fleming lýsir í bókum sínum,“ sagði Boyd við blaðamenn þar sem hann var að árita bók sína í London í dag, miðvikudag.
„Sem er einhver sem líkist bandaríska söngvaranum og lagasmiðnum Hoagy Carmichael – hár, grannur, háfættur, mjög dökkhærður, og myndarlegur maður.“
Day-Lewis er þó ekki að fara að taka við hlutverkinu í nálægri framtíð þar sem Daniel Craig mun leika Bond í 24. Bond myndinni í leikstjórn Sam Mendes, sem frumsýnd verður í lok árs 2015.