Bollywood leikkona í 26 ára fangelsi

Hin þekkta pakistanska Bollywood leikkona Veena Malik var í gær dæmd í 26 ára fangelsi fyrir guðlast af sérstökum and-hryðjuverkadómstóli í Pakistan.  Glæpur leikkonunnar var sá að koma fram í þykjustu giftingaratriði, sem sett var á svið í dægurmálaþætti á sjónvarpsstöðinni Geo TV, og byggt var á brúðkaupi dóttur spámannsins Múhameðs.

bollywood

Þátturinn olli miklu fjaðrafoki í múslimalandinu þegar hann var sýndur í maí sl., þó svo að svipuð atriði hefðu verið send út áður fyrr og enginn á þeim tíma kippt sér sérstaklega upp við það. Margir grunuðu pakistanska herinn um að standa á bakvið gervibrúðkaupið, og að það hafi verið sett á svið til að koma á trúarstríði við sjónvarpsstöðina.

Eiginmaður Malik,  Asad Bashir Khan, og Mir Shakil-ur-Rahman, yfirmaður stærstu fjölmiðlasamsteypu landsins, voru sömuleiðis dæmdir í 26 ára fangelsi.

„26 ár! Glætan. 26 ár er heil mannsævi .. en ég hef trú á hærra dómstiginu í Pakistan,“ sagði Malik í viðtali sem Gulf News vitnar til.

„Þegar lokaúrskurðurðinn verður birtur, þá kemst réttlæti á. Ekkert slæmt mun henda.“

Malik hefur ástæðu til bjartsýni þar sem ekki er endilega víst að hún þurfi að afplána dóminn. Lögsaga dómsins er borgin Gilgit, en yfirráð yfir henni hafa bæði Pakistan og Kashmir. Sem slík er borgin ekki talin fullgilt pakistanskt svæði, sem þýðir að hvaða dómur sem kveðinn er upp þar á ekki við restina af landinu, eins og segir í breska blaðinu The Indipendent. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Malik veldur uppnámi. Árið 2011 sat hún fyrir í indverskri útgáfu karlablaðsins FHM, en á forsíðunni birtist hún þannig að einungis hendur og fætur huldu hennar leyndustu staði, auk þess sem skammstöfunin ISI, sem stendur fyrir pakistönsku leyniþjónustuna Inter-Services Intelligence agency, var rituð á handlegg hennar.