Í gær var ný íslensk kvikmynd, Austur, eftir Jón Atla Jónasson, frumsýnd fyrir troðfullum stóra sal Háskólabíós, en myndin fer í almennar sýningar á morgun, föstudag, í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri.
Myndin er innblásin af raunverulegum atburðum úr íslenskum undirheimum, eins og segir í tilkynningu frá Senu, og má segja að bíógestum í gær hafi á stundum runnið kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þorpararnir í myndinni misþyrmdu fórnarlambinu, manni, sem Björn Stefánsson leikur, á hrottalegan hátt og héldu honum föngnum í nokkurn tíma, niðri í kjallara.
Myndin er að mörgu leyti óvenjuleg, atburðarásin er hægfara, persónur fáar og samtölin skorin nokkuð við nögl, en áhorfendur fá smá vísbendingar hér og þar, mis-augljósar, um bakgrunn sögunnar og sögupersóna, og hvernig þeim líður.
Í stuttu máli fjallar myndin um ungan mann sem á einnar nætur gaman með fyrrverandi unnustu og barnsmóður ofbeldisfulls glæpamanns, sem bregst illa við þegar hann fréttir af kynnum unga mannsins og barnsmóður sinnar. Glæpamaðurinn fær vini sína með sér í að nema unga manninn á brott til þss að kúga út úr honum fé. Glæpamennirnir fara með unga manninn í kjallara fyrir austan fjall, þaðan sem myndin dregur nafn sitt af, og fer þá allt úr böndunum.
Leikstjórinn gaf, eins og segir í samtali við hann í Fréttablaðinu, leikurum lausan tauminn: „Ég skrifaði ekki ítarlegt handrit að myndinni, því ég var sjálfur að leikstýra,“ segir Jón Atli í samtali við Fréttablaðið. „Ég skrifaði enga díalóga. Ég gaf leikurum mjög frítt spil [ ..] Ég lít á þetta sem samvinnu og vil frekar nýta leikarana í skapandi vinnu en túlkandi.“
Það má segja að myndin dragi upp nokkuð trúverðuga mynd af því hvernig svona tiltæki gæti verið í framkvæmd, en menn verða að mæta í bíó til að upplifa þetta sjálfir.