Framleiðslufyrirtækið Sony Pictures hefur gefið út opinberan söguþráð fyrir nýja ofurhetjumynd Vin Diesel og Jóhanns Hauks Jóhannessonar, sem gerð er upp úr teiknimyndasögu um ofurhetjuna Bloodshot, úr ranni Valiant Entertainment teiknimyndasögufyrirtækisins. Diesel leikur í myndinni hlutverk Ray Garrison, sem öðlast ofurmannlegan styrk, hraða, lipurð og bataeiginleika.
Söguþráðurinn er eftirfarandi:
Eftir að hann og eiginkona hans eru myrt, þá er landgönguliðinn Ray Garrison vakinn aftur til lífsins af hópi vísindamanna. Með nanótækni eru allir hans eiginleikar ýktir til muna, og hann verður ofurmannlega, líftæknifræðilega drápsmaskínan Bloodshot. Þegar Ray hefur þjálfun með öðrum ofurhermönnum, þá man hann ekkert frá fyrra lífi. En þegar minningarnar fara að koma til baka og hann man eftir hver það var sem myrti hann og konu hans, þá brýst hann út af æfingasvæðinu, þyrstur í hefnd, en kemst þá að því að samsærið nær dýpra en hann hélt.
Leikstjóri myndarinnar er brellumeistarinn Dave Wilson og handrit ritar Eric Heisserer ( Arrival ) og Jeff Wadlow. Aðrir helstu leikarar eru Toby Kebbell (Fantastic Four), Eiza Gonzalez (Baby Driver), Guy Pearce (The Catcher Was a Spy), Sam Heughan (Outlander), Talulah Riley (Westworld), Jóhannes Haukur Jóhannesson (Game of Thrones), Lamorne Morris (Game Night) og Alex Hernandez (UnReal).
Myndin kemur í bíó 21. Febrúar á næsta ári, 2020.