Eduardo Sanchez og Daniel Myrick, höfundar fyrstu Blair Witch myndarinnar, hafa hugmyndir um að gera þriðju myndina, og sagði Sanchez í nýlegu viðtali þá aldrei hafa verið eins nálægt því að koma myndinni í gang og núna.
Eins og flestir muna var The Blair Witch Project hræódýr stúdentamynd, sem tókst með sniðugri hugmynd og öflugri internet markaðssetningu að græða yfir 250 milljónir dollara í Bandarískum bíóhúsum. Myndin gerði „found – footage“ nálgunina að því sem hún er í dag, og nýtti sér forvitnina sem skapaðist um hvort myndin „væri ekta“. Dreifingaraðili myndarinnar, Artisan, hamraði járnið meðan það var heitt, og dreif í því að framleða The Blair Witch Project 2: Book of Shadows, sem tengdist hinni myndinni lítið sem ekki neitt, og var gerð án þáttökku þeirra Sanchez og Myrick.
Nû segjast þeir félagar vera með hugmynd að beinu framhaldi að fyrstu myndinni, en þeir bíði bara eftir samþykki Lionsgate, sem er núverandi rétthafi myndarinnar. Nýja myndin myndi nokkurnvegin líta framhjá þeirri annari, og er planið að fá leikara úr fyrstu myndinni aftur, þó að þeir yrðu líklega ekki aðalpersónur. Þó telja þeir ekki líklegt að myndin yrði tekin upp í fyrstu persónu, en áhrifamáttur þeirrar aðferðar hefur minnkað.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Sanchez talar um hugmyndir að framhaldi, en á 10 ára afmæli fyrstu myndarinnar hafði hann svipaða hluti að segja. Þá spyr maður sig bara, eftir hverju er Lionsgate að bíða? Þetta yrði væntanlega hræódýr mynd, með mjög mikilli gróðavon. Er mögulegt að þeim finnist hugmynd þeirra félaga ekki nógu góð?