Jack Black snýr aftur í gervi Kung-Fu Panda, sem er í þrívídd í þetta skiptið, í maí nk. en hann segir að ef einhver hasarmyndahetja eigi skilið að vera sýnd í þrívídd þá sé það pandan góða Po.
Valin atriði úr myndinni voru sýnd á mánudaginn á CinemaCon, sem er hátíð haldin í Las Vegas í Bandaríkjunum fyrir eigendur kvikmyndahúsa.
Upprunalega myndin þénaði alls 630 milljónir Bandaríkjadali um allan heim, en sú mynd var einungis í tvívídd. Framhaldið er í þrívídd eins og sagði hér á undan, og er því líkleg til frekari afreka í miðasölunni en hin tvívíða fyrsta mynd. Frumsýningardagur myndarinnar er 26. maí nk.
Jack Black segir að þrívíddin muni gera Kung Fu Panda 2 að meiri rússibanareið en þá fyrri, og dengi áhorfendum inn í miðja bardaga myndarinnar.
„Mín tilfinning er að þrívídd með rétta fólkinu, réttu teiknurunum og tæknimönnum, sé ótrúlega flott
og auki tvímælalaust á upplifun áhorfandans, sérstaklega þegar myndin er rétt,“ sagði Black og bætti við að þetta ætti nákvæmlega við um Kung Fu Panda 2. „Ég á við að þetta á ekki við allar myndir, til dæmis er engin þörf á að gera myndina My Dinner with Andre 2 í þrívídd.“
Í myndinni koma þau saman á ný þau Black, Angelina Jolie, Dustin Hoffman, Seth Rogen, Jackie Chan og Lucy Liu. Gary Oldman er nýr í hópnum en hann talar fyrir nýtt illmenni; páfugl sem leysir úr læðingi nýtt og skeinuhætt vopn sem Po og félagar verða að kljást við, til að verja konungsríkið.
Black sagði að hann væri til í að gera þriðju Kung Fu Panda myndina, þó að nóg sé framundan hjá honum. Til dæmis mun hann gera mynd aftur með leikstjóranum Richard Linklater sem leikstýrði Black í School of Rock. Myndin heitir Bernie og er um mann sem á í ástarsambandi við eldri konu, sem endar í tómri vitleysu. Black leikur einnig ásamt Steve Martin og Owen Wilson í The Big Year, um keppinauta í árlegri fuglaskoðunarkeppni.
„Alltaf þegar fullorðnir menn eru að keppa hatrammlega í einhverju hálf fáránlegu, þá er fullt af skemmtiefni þar,“ sagði Black um síðastnefndu myndina.
Black er einnig með Cameo í myndinni The Muppets, og leikur skuggalegri útgáfu af sjálfum sér. „Mér er rænt af prúðuleikurunum.“