Bíódagar Græna Ljóssins hefst í dag

Bíódagar Græna Ljóssins hefjast í Regnboganum í dag og við erum að vinna í því að hafa allar upplýsingar sem hægt er að finna um myndirnar aðgengilegar hér á Kvikmyndir.is. Sem gerir það að verkum að Kvikmyndir.is ætti að vera ykkar eina stopp áður en þið ákveðið hvaða mynd þið viljið sjá í bíó!

TROPA DE ELITE – OPNUNARMYND
Hér er á ferðinni kyngimögnuð pólítísk hasar-dramamynd frá Brasilíu, um sjálfstæða sérsveit innan lögreglunnar, sem hefur það hlutverk að berjast með öllum tiltækum ráðum gegn eiturlyfjabarónunum í fátækrahverfum Rio De Janeiro. Myndin hefur slegið öll aðsóknarmet í heimalandi sínu og valdið gríðarlega miklu umtali. Fyrir utan sýningar í Brasilíu og Berlín hefur myndin ekki ennþá verið frumsýnd í öðrum löndum, en búist er við því að hún fari mikla sigurgöngu um allan heim á næstu misserum. Það er því mikill heiður fyrir Bíódaga Græna ljóssins að frumsýna myndina á undan flestum öðrum hátíðum og löndum heims.

KING OF KONG (Seth Gordon, 2007, 79mín, USA)
Óborganleg heimildarmynd um mestu tölvunörda veraldar. Heimsmeistarinn í Donkey Kong er sósumógull sem lifir á fornri frægð og áskorandinn er grunnskólakennari sem ætlaði að verða rokkstjarna, en hættir til að gráta við minnsta tilefni. Uppgjör þessarra manna er einn mesti bardagi allra tíma.

SAND AND SORROW (Paul Freedman, 2007, 92mín, USA)
Vönduð og áhrifarík heimildarmynd um þjóðarmorðin í Darfur og hvernig alþjóðasamfélagið hefur brugðist skyldum sínum í að koma böndum á ástandið. George Clooney er þulur myndarinnar.

BELLA (Alejandro Gomez Monteverde, 2006, 91mín, USA)
Hugljúf mynd um einn dag í lífi þriggja manneskja í New York, sem hefur afgerandi áhrif fyrir líf þeirra allra. Myndin sigraði Áhorfendaverðlaunin á Toronto.

LIVING LUMINARIES (Larry Kurnarskuy, 2007, 90mín, USA)
Ef þú fílaðir The Secret þá muntu elska þessa. Helstu fræðimenn og spekingar heims á sviði hamingjuleitarinnar fjalla á áhugaverðan hátt um það hver sé rétta leiðin til að öðlast hina einu sönnu hamingju.

THE BAND´S VISIT (Bikur Ha-Tizmoret – Eran Kolirin, 2007, 87mín, Ísrael / Frakkland / USA)
Margverðlaunuð, hugljúf og bráðfyndin mynd frá Ísrael sem hefur farið sigurför um heiminn. Stórsveit skipuð lögreglumönnum frá Egyptalandi heldur til Ísrael, til að að koma fram í menningarmiðstöð Araba, en villast og gerast strandaglópar í litlum og afskaplega rólegum bæ, þar sem koma þeirra vekur óskipta athygli og oft á tíðum kátínu meðal Egypsku bæjarbúanna.

BEUFORT (Joseph Cedar, 2007, 125mín, Ísrael)
Fyrsta myndin frá Ísrael sem tilnefnd hefur verið til Óskarsverðlauna, en hún var tilnefnd sem besta erlenda myndin í ár. Myndin segir sögu 22ja ára hermanns og hersveitar hans mánuðina áður en ísraelsher dró sig út úr Líbanon árið 2000. Óvinurinn er ósýnilegur, en sprengjur falla af himnunum á meðan skelfingu lostnir ungir hermenn gera sitt besta til að uppfylla skyldur sínar fram til síðustu stundar. Leikstjórinn Joseph Cedar hlaut Silfurbjörninn í Berlín fyrir bestu leikstjórnin árið 2007.

SURFWISE (Doug Pray, 2007, 93mín, USA)
Óborganleg heimildarmynd um hinn 85 ára lækni, heilsufrík, brimbrettagæja og kynlífsgúrú Dorian „Doc“ Paskowits, sem varð þjóðþekktur í Bandaríkjunum fyrir að snúa baki við farsælum starfsferli og bandarískri velmegun og valdi ásamt konunni sinni þess í stað að búa í húsbíl, ferðast um landið þvert og endilangt, vera sjálfum sér næg og stunda brimbrettin alla daga. Doc er enn í fullu fjöri og fer á kostum í myndinni, þegar hann rekur sögu sína og lýsir sínum sérstöku skoðunum á lífinu og tilverunni.

THE AGE OF IGNORANCE (L’ Âge des ténèbres – Denys Arcand, 2007, 104mín, Canada)
Nýjasta myndin frá Denys Arcand sem hlaut Óskarsverðlaunin árið 2007 fyrir Barbarian Invasions. Hér er á ferðinni lokakaflinn í trílógíunni sem hófst með „The Decline of the American Empire“. Við kynnumst örvæntingarfullum borgarstarfsmanni sem er búinn að fá upp í kok af tilbreytingarnsauðri grámyglunni og gleðisnauðu lífi sínu, þar sem starfið er drepleiðinlegt, konan þolir hann ekki og dæturnar skilja hann ekki. Hans einu ánægjustundir eru þegar hann flýr raunveruleikann inn í draumaheiminn, þar sem hann er mikil hetja og allt gengur honum í haginn.

CARAMEL (Sukkar banat – Nadine Labaki, 2007, 95mín, Frakkland / Líbanon)
Hugljúf rómantísk grínmynd frá Líbanon, sem hefur fengið frábæra dóma um allan heim, eftir leikkonuna Nadine Labaki, sem fer einnig með aðahlutverkið. Við fylgjumst með daglegu lífi fimm kvenna í Beirút sem eiga það sameiginlegt að stunda sömu snyrtistofuna. Það gengur á ýmsu í karlamálum og öðrum málum en konurnar standa saman í gegnum súrt og sætt.

LAKE OF FIRE (Tony Kaye, 2006, 152mín, USA)
Stórbrotin, epísk og gríðarlega áhrifarík heimildarmynd eftir Tony Kaye (American History X) um fóstureyðingardeiluna í Bandaríkjunum. Kaye eyddi 18 árum í gerð myndarinnar og kafar dýpra en áður hefur sést í allar hliðar málsins. Svart hvítt listaverk sem á sér engan líka og lætur engan ósnortinn.

WAR / DANCE (Sean Fine / Andrea Nix, 2007, 105mín, USA)
Mögnuð heimildarmynd sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna í ár og vann leikstjórnarverðlaunin á Sundance. Sögusviðið er Norður Úganda, land sem hefur þurft að þola stanslaus stríðsátök í tvo áratugi og við kynnumst Dominic, Rose og Nancy, þremur börnum sem hafa misst allt í stríðinu; fjölskyldur þeirra eru sundraðar, heimilin í rúst og þau draga fram lífið hrörlegum flóttamannabúðum. Þegar þeim er boðið að taka þátt í árlegri dans- og tónlistarhátíð fá þau tækifæri til að endurheimta æskuna og upplifa í fyrsta skipti hvernig það er að sigra.

Miðasala er í gangi á Miði.is, en heildarpassi á 12 myndirnar er hægt að kaupa þar. Sýningartíma er hægt að nálgast hér á Kvikmyndir.is, undir „Í bíó“ hér efst.