Bílabíói frestað vegna veðurs

Bíógestir eru orðnir vanir því þessa dagana að heyra fréttir af frestunum. Nú skrifast það að vísu ekki á kórónuveiruna, heldur vegna veðurs og gulrar viðvörunar, en til stóð hjá Senu og Smáralind að halda bílabíó nú um helgina. Á dagskrá voru íslensku kvikmyndirnar Jón Oddur & Jón Bjarni, Dalalíf og Löggulíf og átti að stilla upp tjaldi á efra plani Smáralindar þar sem inngangur Smárabíós er.

Heppilega eru þó bílabíóið ekki alveg fokið af dagskránni og er stefnt að því að halda sömu sýningar í næstu viku.

Í tilkynningu frá Senu segir:

Því miður þurfum við að tilkynna frestun á bílabíóinu sem við hjá Smárabíó ætluðum að halda um helgina í samvinnu við Smáralind.

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir sem okkur ber að virða og höfum því ákveðið að fresta bílabíóinu fram á þriðjudag og miðvikudag (7. – 8. apríl).

Okkur þykir þetta mjög leitt, en tókum ákvörðun til að tryggja öryggi og upplifun gesta okkar og starfsfólks. Við hlökkum svo til að sjá ykkur í bílabíó á þriðjudag og miðvikudag.