Vinirnir Tommy Wiseau og Greg Sestero hafa gengið í gegnum súrt og sætt í gegnum tíðina í bransanum. Þeir eru hvað frægastir fyrir það að standa að baki kvikmyndarinnar The Room, en hún er talin vera ein versta kvikmynd sem gerð hefur verið. Þrátt fyrir að myndin hafi ekki heppnast eins og áætlað var þá náðu þeir samt takmarki sínu. Myndin gerði þá báða heimsfræga og er enn til sýninga í kvikmyndahúsum um heim allan.
Wiseau og Sestero leiða saman hesta sína á ný í kvikmyndinni Best F(r)iends sem fer í almennar sýningar á næsta ári. Myndin fjallar um flæking (Sestero) sem fær húsaskjól hjá undarlegum útfararstjóra (Wiseau). Þeir félagar stofna síðan neðanjarðarfyrirtæki, byggt á gömlum venjum útfararstjórans. En græðgi, hatur og afbrýðisemi fara að gera vart við sig.
Í dag var opinberað nýtt plakat fyrir myndina og má segja að netið hafi gjörsamlega farið á hliðina. Plakatið má sjá hér að ofan. Á plakatinu er mikil nánd milli Wiseau og Sestero og í bakgrunni er stjörnubjartur himinn. Plakatið er frekar villandi hvað varðar söguþráð myndarinnar því sumir vilja meina að þetta plakat minni frekar á rómantíska gamanmynd þegar myndin er í raun um allt annað.
Fyrir þá sem hafa ekki enn séð sýnishorn úr myndinni þá er nauðsynlegt að horfa á það hérna í spilaranum að neðan.
Þess má einnig geta að kvikmyndin The Disaster Artist, sem fjallar um gerð The Room, verður frumsýnd hér á landi milli jóla og nýárs. Bræðurnir James og Dave Franco fara með hlutverk Wiseau og Sestero.