Það er engu líkt að sækja kvikmyndahús og njóta þar magnaðra bíómynda. Upplifunin snýst þó ekki aðeins um stærð tjaldsins heldur einnig um almenn gæði og þægindi salarins auk ýmissa smáatriða.
En skoðum hvernig salirnir á höfuðborgarsvæðinu raðast upp, frá þeim versta til hins besta.
Það er Heimir Bjarnason kvikmyndagerðarmaður sem skrifar samantektina. Hann fær orðið.
Kvikmyndahús á Íslandi eru með þeim betri í heiminum. Undanfarin ár hafa miklar breytingar átt sér stað. Það virðist sem samkeppnin milli kvikmyndahúsanna sé ekki lengur um úrval kvikmynda í sýningu heldur aðstöðuna sjálfa. Hver býður upp á bestu upplifunina?
*Ath. þetta er uppfærður listi. Sjá fyrri færslu hér.
Byrjum á botninum…
23. Sambíóin Álfabakka – Salur B
Langur og flatur. Sætin fremst eru þó fín.
22. Sambíóin Kringlunni – Salur 2
Minnsti salurinn í Kringlunni stendur fyrir sínu en ég mæli ekki með því að sjá hasarmyndir hér. Góður salur fyrir rólegri myndirnar.
21. Sambíóin Álfabakka – Salur 2
Tjaldið er fullhátt en það er góð old-school orka hér.
20. Bíó Paradís – Salur 2
Sísti salurinn í Paradísinni. Ég viðurkenni að kannski er ég bara kominn með leið á honum þar sem ég virðist ALLTAF enda hér þegar ég fer í Bíó Paradís. Fyrst ég byrjaður að nöldra langar mig að bæta einu við. Plís plís plís hættið að sýna auglýsinguna þar sem Æði strákarnir segja “Ég sko hata bíó” Í AUGLÝSINGU FYRIR KVIKMYNDAHÚS. Það er eins og fá Bónus-auglýsingu þar sem einhver segir: “Ég sko hata mat en Bónus er allt í lagi”.
19. Laugarásbíó – Salur B
Lítill og kósý. Minnir smá á litla salinn í Kringlunni en fer ofar vegna þægilegra sæta.
18. Sambíóin Egilshöll – Salur 4
Eini salurinn í Egilshöll þar sem tjaldið trónir ekki yfir manni.
17. Smárabíó – Salur 4 og 5
Hendi þessum systkinasölum saman. Fínir salir með skemmtilega framtíðarlegu lúkki en þeir eiga ekki roð í stóra bróðir sinn, MAX.
16. Sambíóin Álfabakka – Salur 1
Ég fæ svo mikið nostalgíu-kast við að heimsækja Álfabakka og er í raun fegin að bíóið sé ekki að breytast mikið. Flottur salur en tjaldið mætti vera stærra.
15. Sambíóin Kringlunni – Salur 3
Miðjusalurinn stendur fyrir sínu. P.s. Sæti 8 & 9 í röð 11 er besti staðurinn fyrir deit-night, if you know what I mean. Hulinn bakvið vegg en samt ekki út í kanti. Miklu betra en parasætin í Ásberg.
14. Bíó Paradís – Salur 3
Kósýasti kósý salurinn.
13. Sambíóin Álfabakka – Salur A
Hlutfallslega með stærra tjald en salur 1 PLÚS halli. Góður salur.
12. Smárabíó – Lúxus
Ekki misskilja mig, þetta er mjög góður Lúxus salur! Ég hef bara aldrei elskað lúxus-sali yfir höfuð. Ég vil vera í troðfullum sal með öðrum áhorfendum, ekki sitja langt frá næsta manni í einhverju kóngasæti.
P.s. fyrir þá sem vilja óþverrann sem er hlé – þetta er eini Lúxus salur landsins með hlé.
P.s.s. Hér er líka hægt að fá bjór og vín.
P.s.s.s. Ókei, þá meikar sense að hafa hlé.
11. Sambíóin Álfabakka – VIP salur
Sömu rök hér og með Smárabíó salinn. Ég set þennan örlítið ofar því tjaldið er nær manni plús hléleysi.
10. Sambíóin Kringlunni – Salur 1
Fínasti salur. Smá nördanóta: Góður salur fyrir myndir í 4:3 og 16:9 hlutföllum.
9. Laugarásbíó – Salur A
Pottþéttur miðlungs salur. Þægilegustu sætin á landinu.
8. Smárabíó – Salur 2
Mitt á milli litlu salanna og MAX.
7. Bíó Paradís – Salur 1
Það er algjört skilyrði að sitja framarlega í þessum sal. Hljóðið er æði, sætin fín og það er mjög kósý að sitja fremst og setja lappirnar á stöngina.
6. Sambíóin Egilshöll – Salur 2 og 3
Mjög svipaðir salir. Risatjald í báðum tjöldum og góð sæti. Smá nörda-nitpick um Egilshöll: Það er aðeins of mikið zoom á myndunum. Þetta er gert því þeir vilja væntanlega að 2.35:1 myndir teygi sig í báðar hliðar en þá missum við örlítinn hluta myndarinnar uppi og niðri. Þetta er enginn heimsendir en mætti skoða – og já, ég geri mér grein fyrir því að partur myndarinnar mun alltaf hverfa því tjaldið er bogið (eins og í Laugarásbíó) en þetta er fullmikið.
5. Sambíóin Kringlunni – Ásberg
Jæja, þá er komið að eina nýja salnum á listanum. Ásberg er klárlega besti Lúxus-salur landsins. Sætin eru mjög fín, tjaldið fyllir út vegginn og Dolby Atmos hljóðkerfið er keyrt í botn. Myndir eins og “Killers of the Flower Moon” og “Oppenheimer” fannst mér koma mjög vel út hérna. Endalaust popp og kók eins og í Álfabakka, æði! Hléleysi, fullkomið! Ég verð samt að segja – mér finnst það sturlun að hafa innbyggða símahleðslu í sætunum. Kvikmyndahúsin ættu frekar að útbúa skilti/myndbönd sem ítreka að farsímanotkun sé bönnuð og spila það á undan myndinni. En ég er náttúrulega pjúristi í þessum efnum.
Burtséð frá þessu litla ranti… Þá er þessi salur algjör snilld fyrir þá sem fíla lúxusinn og kraftmeira hljóð.
4. Sambíóin Álfabakka – Salur 3
Þessi salur fær alltaf að vera ofarlega – aðallega til að benda á að þessi listi er huglægur. Það eru engin nákvæm vísindi bakvið þessa röðun og þetta er bara skrifað til skemmtunar. Ég á góðar minningar í þessum sal og finnst sjónarhornið frá meirihluta sætanna mjög gott.
3. Sambíóin Egilshöll – Salur 1
Stærsta tjald landsins. Það er alltaf stemning að koma hingað.
2. Smárabíó – MAX
Að mínu mati er þessi salur með bestu gæði landsins. Rosaleg skörp mynd og þægilegt og skýrt hljóð. Eitt dæmi um það er myndin Berdreymi. Ég sá hana fyrst í öðru bíói þar sem ég skildi ekki alveg allt sem var sagt. Síðan sá ég hana í þessum sal og skildi hvert einasta orð.
1. Laugarásbíó – AXL
Egilshöll er með stærsta tjaldið. Smárabíó er e.t.v. með skarpari gæði. En ef ég lít á alla flokkana (tjald, sæti, stærð, hljóð) þá er AXL sigurvegarinn. Hljóðið er kraftmikið og tjaldið fyllir allan vegginn. Algjör winner.