Framtíðartryllirinn Oblivion, nýjasta mynd Tom Cruise, sem tekin var upp hér á Íslandi að hluta, eins og margoft hefur komið fram, var vinsælasta myndin í Bandaríkjunum í gær föstudag, og stefnir í að verða vinsælasta mynd helgarinnar þar í landi, en myndin var frumsýnd í gær þar ytra.
Tekjur af myndinni námu 13,5 milljónum Bandaríkjadala í gær, föstudag.
Myndinni gengur betur en sérfræðingar höfðu spáð fyrir um, en miðað við gengi myndarinnar í gær þá er útlit fyrir að hún þéni samanlagt 38 milljón dali yfir alla helgina og verði toppmynd helgarinnar.
Þetta er mikið ánægjuefni fyrir Tom Cruise – þessar tekjur eru meiri en síðustu tvær myndir hans þénuðu samanlagt á sinni frumsýningarhelgi, þær Rock of Ages og Jack Reacher, og árangurinn er sá besti fyrir Tom Cruise síðan árið 2006 þegar Mission Impossible 3 var frumsýnd, en hún þénaði 47 milljónir dala á fyrstu þremur dögum í sýningu.
Oblivion er eina nýja myndin sem sýnd er í mikilli dreifingu í Bandaríkjunum. Nýjasta mynd Ryan Gosling og Bradley Cooper, Place Beyond the Pines, var þó færð úr 514 bíótjöldum yfir á 1.542 tjöld, en myndin var frumsýnd í lok mars. Place Beyond the Pines þénaði 1,4 milljón dali í gær föstudag, og útlit er fyrir 4,4 milljón dala helgi hjá myndinni sem var sú sjötta aðsóknarmesta í gær.
Toppmynd síðustu helgar, 42, um fyrsta svarta atvinnumanninn í hafnabolta, Jackie Robinson, var önnur aðsóknarmesta myndin í gær og útlit er fyrir að heildartekjur hennar yfir helgina verði 17 milljónir dala.