Eftir að hann kom sér á kortið í fyrra með snilldarlegu leigumorðingja-hrollvekjunni Kill List, hefur leikstjórinn Ben Wheatley ekkert verið að slóra og strax er hans næsta verk, Sightseers, komið með annan fótinn í kvikmyndahús. Hún fylgir parinu Tinu og Chris er þau ferðast um sveitir Bretlands með druslulegt hjólhýsi í eftirdragi. Fríið byrjar nógu vel, en fljótlega fara réttu litir Chris að skína með hrottalegum og gamansömum afleiðingum.
Strax er myndin að fá gott umtal og að sögn viðhelst eitilharður stíll Wheatleys í bland við kolsvartan húmor. Að minnsta kosti er undirritaður orðinn spenntur, en fyrir leikstjóranum tilheyrir þetta allt fortíðinni; þar sem hann hefur nú hafið vinnu á enn öðru verkefni. Það mun bera heitið A Field in England og ef má marka fljótleg vinnubrögð Wheatleys þá ætti ekki að vera of langt í myndina.
Hún gerist á tímum Ensku borgarastyrjaldarinnar og fjallar um hóp gráðugra hermanna sem yfirgefa stöður sínar í leit að fjársjóði. Á leiðinni finna þeir búnt af töfrasveppum og upphefst þá „sturluð ferð niður stræti töfra og brjálæðis.“
Sightseers stígur í kvikmyndahús í enda nóvember og vonandi er A Field in England væntanleg á næsta ári, en líkurnar á að þær sjáist á hvíta tjaldinu hér á klakanum eru því miður litlar.