Hin stórkostlega kvikmynd Being John Malkovich var svo frumleg að það var bara tímaspursmál hvenær einhver í Hollywood myndi herma eftir henni. Það hefur nú skeð, og handrit hefur verið skrifað að mynd sem ber nafnið Brad Pitt Wants My Girlfriend. Maður að baki þessari stórkostlegu ákvörðun heitir Les Firestein, og skrifaði hann ekki aðeins handritið heldur mun einnig leikstýra myndinni. Fjallar hún um par sem á í erfiðleikum, og þegar stúlkan heimsækir vini sína í Kanada þá hittir hún Brad Pitt þar sem hann er að taka upp kvikmynd í nágrenninu. Þegar þau verða ástfangin, ákveður maðurinn að nú sé nóg komið og hann ætli sér að ná kærustunni sinni aftur úr illum klóm Pitt. Pitt hefur ekki enn sagt hvort hann muni taka að sér þetta hlutverk, en ef hann gerir það ekki þá skiptir það í raun engu máli. Einhver annar í Hollywood tekur það þá að sér og nafni myndarinnar verður þá breytt. Hér er t.d. ein hugmynd, Marlon Brando Wants My Girlfriend.

