Bein brotna á ný – Fyrsta stikla úr Headshot

Þeir sem heilluðust af hasarleikaranum Iko Uwais í indónesísku slagsmálabombunni The Raid ættu nú að sperra eyrun, því von er á nýrri mynd frá kappanum sem, miðað við fyrstu stikluna úr myndinni, hefur engu gleymt frá því hann lék í The Raid, og slagsmálasenur virðast vera hugvitsamlega blóðugar og vel út færðar.

Headshot-4-620x410

Myndin heitir Headshot, eða Höfuðskot, og er leikstýrt af Timo Tjahjato og Kimbo Stamboel, en þeir voru báðir viðriðnir myndina Safe Haven, ásamt Gareth Evans leikstjóra The Raid.

Sagan í myndinni er nokkuð kunnugleg. Manni, sem Uwais leikur, skolar á land og man ekki neitt. Sætur og umhyggjusamur læknir tekur hann undir sinn verndarvæng. En fortíðin er drungaleg og hún kemur aftan að honum af fullum krafti. Ekki líður á löngu áður en byssukúlur fara að fljúga og borð og bein að brotna, í sama stíl og við þekkjum úr The Raid myndunum.

Myndin verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada, TIFF. Með önnur helstu hlutverk fara Sunny Pang, David Hendrawan og Tri Yulismann ( maðurinn með hafnaboltakylfuna úr The Raid 2).

Headshot verður frumsýnd í heimalandinu Indónesíu 16. desember nk. en óvíst er enn með sýningar annarsstaðar.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan, og plakatið þar fyrir neðan:

headshot