Eftir orðróma um hugsanlegt framhald af marglofaða tvíleik leikstjórans Richard Linklater, Before Sunrise og Before Sunset, hefur leikarinn og sjarmatröllið Ethan Hawke staðfest að tökur á framhaldinu munu hefjast nú í sumar.
Linklater hefur farið huldu höfði með verkefnið hingað til og svaraði stutt í viðtali á kvikmyndahátíðinni á Sundance að engin áform væru heilsteypt varðandi framhald, en Hawke leysti frá skjóðunni í nýlegu viðtali varðandi nýjustu kvikmynd sína, The Woman in the Fifth.
í viðtalinu sagði Hawke: „Við erum einnig að vinna í framhaldi fyrir Before Sunrise og Before Sunset, það ætti að verða gaman.“ Kappinn fór ekki ítarlegra í verkefnið sjáflt fyrir utan að bæta við: „Við munum taka [myndina] upp í sumar,“ en hann segist vera bundinn þagnarskildu varðandi myndina eftir að hafa komið sér í vandræði. Einnig talaði Hawke um hversu mikill munur væri á framleiðslu myndarinnar og væntingar tengdar henni nú en þegar þau gerðu fyrstu tvær. „Stærsti munurinn milli [framleiðslu] fyrstu tveggja og þessarar er netið. Í fyrrverandi skiptin var engin pressa; öllum var skítsama “
Hvernig líst ykkur lesendunum á endurkomu Jesse og Celine? Teljið þið kannski erfitt að toppa síðustu tvær og hvor fannst ykkur betri, Before Sunrise eða Before Sunset?