BDSM í Paradís

bdsmSunnudaginn 4. maí kl. 20:00 fagnar Bíó Paradís margbreytileikanum en þá stendur BDSM á Íslandi, í samvinnu við Bíó Paradís fyrir lítilli kvikmyndahátíð eða BDSM bíó kvöldi. Sýndar verða 6 stuttmyndir sem fjalla um BDSM, erótískt blæti, draumóra, og trans fólk.

Þetta er í fyrsta skipti sem BDSM á Íslandi heldur slíkt bíó kvöld en Fetish Film Festival bauð félaginu tækifæri til að sýna nokkrar myndir frá hátíðinni. Fetish Film Festival er alþjóðleg kvikmyndahátíð sem haldin hefur verið árlega í Kiel í Þýskalandi síðan 2008.

Myndirnar sem eru til sýningar unnu allar til verðlauna á hátíðinni. Hátíðin miðar að því að fræða og upplýsa um jaðarmenningu kynlífs, erótíkur og kynvitundar, gegn fordómum og til að stuðla að fjölbreytileika og umburðarlyndi. Lykilviðmiðin þegar velja á myndir á hátíðina eru þau sömu og einkunnarorð BDSM á Íslandi; öruggt, samþykkt og meðvitað.

Bíókvöld eins og þetta fellur einkar vel að starfsemi félagsins sem liður í því að upplýsa almenning um óhefðbundið kynlíf og kynvitund til þess að draga úr fordómum. Félagið vill stuðla að kynfrelsi, virðingu og jafnrétti.