Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð í Reykjavík er nú haldin í Bíó Paradís í annað sinn. Þetta er fyrsta hátíð sinnar tegundar á Íslandi en í fyrra tók Bíó Paradís á móti yfir 3000 börnum á hátíðina og ljóst er að með hátíðinni hafi verið fyllt upp í ákveðið tómarúm í barnamenningu landsmanna.
Að þessu sinni verða 8 nýjar barnakvikmyndir sýndar auk sex erlendra og íslenskra stuttmyndapakka sem hver og einn er sérsniðinn að ólíkum aldurshópum.
Sýndar verða áhugaverðar myndir um allt milli himins og jarðar. Leiknar myndir, teiknimyndir, heimildamyndir og stuttmyndir fyrir börn á öllum aldri auk sérviðburða í tengslum við hátíðina. Verndari hátíðarinnar er Vigdís Finnbogadóttir og verður hún og Jón Gnarr borgarstjóri viðstödd opnunarhátíðina. Þeir Sveppi og Villi munu kíkja í heimsókn og horfa á klassísku myndina The Goonies með áhorfendum með hljóðnema í hönd 23. mars kl. 16.00. Það er því tilvalið tækifæri fyrir foreldra að mæta með börnunum og horfa á þessa einstöku perlu kvikmyndasögunnar og upplifa hana í stórskemmtilegri meðför tvíeykisins.
Opnunarhátíðið verður á fimmtudaginn næstkomandi kl 17:30 og er opnunarmynd hátíðarinnar að þessu sinni hin stórskemmtilega ofurhetjumynd Antboy. Hún hlaut nýlega Róberts verðlaun dönsku kvikmyndaakademíunnar 2014 sem besta barnamyndin. Leiklesari aðalpersónunnar Palla er Ágúst Örn Wigum sem tilnefndur var til Eddu verðlaunanna 2014 og verður hann viðstaddur opnun Alþjóðlegrar barnakvikmyndahátíðar þar sem gestum gefst færi á að spyrja hann út í leikaralífið eftir sýningu myndarinnar.