Bandaríski stórmyndaleikstjórinn Michael Bay segir að næsta Transformers kvikmynd verði sú síðasta í þeim flokki sem hann muni leikstýra. Erfitt er að taka Bay 100% trúanlegan þar sem hann sagði nákvæmlega það sama áður en hann hóf störf við Transformers: Dark of the Moon frá árinu 2011 og Transformers: Age of Extinction árið 2014.
Í gær tilkynnti hann að hann hefði, hikandi þó, snúið aftur í herbúðir hinna umbreyttu geimvélmenna, í Transformers númer 5.
Í samtali við Rolling Stone tímaritið sagðist hann vera tilbúinn að snúa sér að öðru, að lokinni þessari mynd: „Transformers, ég skemmti mér enn vel. Það er gaman að gera kvikmynd sem 100 milljónir manna munu sjá. En þetta er sú síðasta. Ég verð að afhenda öðrum keflið núna. J.J. [Abrams] sagði við mig: „Þú ert sá eini sem getur gert þetta,“ en það er kominn tími til að snúa sér að öðru.“
Í myndinni mun Mark Wahlberg snúa aftur í aðalhlutverkinu, hlutverki Cade Yeager, en óvíst er með aðra leikara úr síðustu mynd.
Myndin kemur í bíó á næsta ári, 2017.