Nýlega var sýnt stutt myndband þar sem skyggnst er bakvið tjöldin við gerð kvikmyndarinnar Fury, myndin gerist í seinni heimstyrjöldinni og skartar m.a. þeim Brad Pitt og Shia LaBeouf í aðalhlutverkum.
Myndinni lýsir leikstjórinn David Ayer í stuttu máli sem rosalegri skriðdrekamynd, en í helstu hlutverkum öðrum eru Logan Lerman, Michael Peña og Jon Bernthal.
Fury gerist í lok Seinni heimsstyrjaldarinnar, nánar tiltekið í apríl árið 1945. Bandamenn eru að færa sig lengra og lengra inn í Evrópu. Vígamóður liðþjálfi að nafni Wardaddy, sem Pitt leikur, er yfirmaður skriðdreka með fimm hermenn innanborðs, sem fer í lífshættulegan leiðangur yfir víglínuna. Þar lendir Wardaddy í miklu ofurefli liðs og menn hans þurfa að berjast hetjulegri baráttu til að ná að sigra óvininn.
Fury verður frumsýnd þann 14. nóvember næstkomandi. Hér að neðan má sjá myndbandið.