„Baby“ borinn þungum sökum: „Mér þykir þetta afar leitt“

Bandaríski leikarinn og skemmtikrafturinn Ansel Elgort hefur verið í brennidepli á samfélagsmiðlum síðustu daga. Eins og víða hefur verið greint frá var leikarinn sakaður um að hafa framið kynferðisbrot gagnvart stúlku árið 2014, en umrædd stúlka var þá undir lögaldri að eigin sögn.

Ásakandinn, Gabby, gaf út yfirlýsingu á samskiptavefnum Twitter og sagði Elgort hafa beitt sig alvarlegu kynferðisofbeldi. Hún segir atvikið enn sitja fast í sér og hún sé með áfallastreituröskun, fái reglulega kvíðaköst og hafi þurft að leita sér sálfræðiaðstoðar.

Þegar Gabby lýsir samskiptum sínum við leikarann undirstrikar hún að hann hafi beðið hana um að senda sér nektarmyndir – en á þeim tíma var hún á sautjánda ári. Þegar lengra leið á þeirra samband kveðst Gabby hafa verið ráðþrota og í rúst; „Hann taldi mér trú um að kynlíf ætti að vera svona,“ sagði hún á Twitter.

Frásögn Gabby er að finna á Twitter-síðu hennar, @itsgabby.

Elgort hefur verið á uppleið í Hollywood síðustu árin og hófst heimsfrægðin með öðru aðalhlutverkinu í unglingadramanu The Fault in Our Stars, en þar lék hann á móti Shailene Woodley.

Þá lék hann í Divergent-myndabálknum (aftur, á móti Woodley) og sló í rækilega gegn hjá áhorfendum árið 2017 sem undrabílstjórinn „Baby“ í gamantryllinum Baby Driver. Næst má eiga von á að sjá kappann í endurgerð Stevens Spielberg á söngleiknum West Side Story þar sem hann fer með áberandi hlutverk.

Hafnar ásökunum en skammast sín fyrir eigin hegðun

Um sólarhring eftir að saga Gabby dreifðist eins og eldur í sinu á veraldarvefnum, skrifaði Elgort yfirlýsingu sem hann birti á Instagram-síðu sinni. Þar hafnar hann ásökununum og varpar ljósi á sína hlið málsins. Að sögn leikarans áttu þau Gabby í stuttu ástarsambandi þegar hann var nýorðinn tvítugur og allt hafi farið fram með samþykki.

„Það hryggir mig að sjá allar færslurnar um mig sem hafa verið í umferð undanfarinn sólarhring,“ sagði Elgort. „Ég get ekki þóst skilja tilfinningar Gabby, en lýsing hennar á atburðum er einfaldlega ekki í takti við það sem gerðist. Ég hef aldrei, og myndi aldrei brjóta á neinum kynferðislega.“

Elgort viðurkennir að hann hafi lokað á Gabby og hætt að svara henni skömmu eftir að sambandi þeirra lauk. Hann biðjist afsökunar á viðmóti sínu og hvað hann hafi tekið sambandsslitunum illa.

„Þegar ég horfi til baka misbýður mér og ég skammast mín gífurlega fyrir hegðun mína. Mér þykir þetta afar leitt.

Ég geri mér grein fyrir því að ég þurfi að horfa yfir gjörðir mínar, læra af þeim og vonast til þess að geta þroskast til að efla samlíðan mína,“ sagði Elgort.

https://www.instagram.com/p/CBrc56ABpWn/