Það er engan bilbug að finna á hinum 86 ára gamla kvikmyndaleikstjóra Clint Eastwood. Eins og flestir ættu að vita leikstýrði hann Sully sem er í bíó nú sem stendur, og Empire kvikmyndaritið segir nú frá því að hann sé búinn að skrifa undir samning um að leikstýra myndinni Impossible Odds, eftir handriti Brian Helgeland.
Þetta verður þá þriðja ævisögulega mynd Eastwood í röð, en auk Sully leikstýrði hann hinni sannsögulegu American Sniper.
Impossible Odds fjallar um Jessica Buchanan, bandarískan hjálparstarfsmann sem rænt var af sómölskum sjóræningjum árið 2011.
Eastwood og Helgeland vinna saman að því að gera handritið upp úr æviminningum Buchanan, en hún var í 93 daga í haldi ræningjanna úti í eyðimörkinni, á meðan eiginmaður hennar reyndi að fá hana lausa.