Árið 2012 er orðið tveimur ævintýramyndunum færra. Hansel & Gretel Witch Hunters og Jack the Giant Killer hefur báðum verið frestað til ársins 2013.
Hans og Gréta átti að koma út núna í mars, en hefur verið færð fram í janúar 2013. Þar sem við höfum varla séð neitt kynningarefni fyrir myndina kemur það ekki svo á óvart. Talið er að samkeppni svipaðra mynda í mars, (John Carter, Wrath of the Titans, Mirror Mirror) sé hluti af ástæðu frestunarinnar, önnur er sú að aðalleikarinn Jeremy Renner verði orðinn mun þekktara andlit eftir ár, (hann leikur í The Avengers og The Bourne Legacy sem báðar koma út 2012) og því líklegri til þess að draga inn áhorfendur. Þá gæti einfaldlega verið að meiri tíma sé þarfnast til þess að klára myndina. Þó sjaldan sé það álitin traustsyfirlýsing af hálfu kvikmyndavera að færa útgáfudagsetningar mynda fram í janúar, – mánuðinn þar sem aðsókn er hvað dræmust – gæti verið að þeir sjái þar tækifæri fyrir myndina í minni samkeppni. Leikstjóri er Tommy Wirkola sem gerði hina stórskemmtilegu Død snø og því held ég í vonina að eitthvað skemmtilegt komi út úr myndinni.
Jói og Baunagrasið átti að koma út í júní, á háannatíma í kvikmyndaiðnaðinum. Fyrsta stiklan fékk heldur dræmar viðtökur þegar hún var frumsýnd fyrir rúmum mánuði, og greinilegt er að Warner hefur misst einhverja trú á verkefninu. Myndin hefur verið færð fram í mars 2013. Þar fær hún meira rýmni en á milli stórmyndanna sumar 2012, og Warner fá tíma til að hugsa markaðssetninguna upp á nýtt – sem virðist klárlega vera þörf á. Mynd fyrirtækisins Arthur & Lancelot sem átti að koma út þá, virðist hafa verið endanlega afskrifuð.
Þetta er athyglisverður kafli í eftirstöðvum ævintýraæðis Hollywood, en flestir vilja meina að tilvist ofangreindra mynda og margra fleira sé gríðarlegri velgengni Alice in Wonderland (2010) eftir Tim Burton að þakka. Nú, þegar margar af þeim myndum sem hafist var handa við eru komnar á eftirvinnslustigið, er eins og vissan um velgengni ævintýranna hafi minnkað. Við þurfum þó ekki að örvænta vegna ævintýraskorts, ennþá eru væntanlegar tvær mismunandi myndir um Mjallhvíti á næstu mánuðum.