Svo virðist sem áhættan sem James Cameron tók með gerð kvikmyndarinnar Avatar: The Way of Water hafi rækilega borgað sig ef marka má nýjustu tölur úr miðasölu. Myndin sem frumsýnd var þann 16. desember er framhald af Avatar sem kom út árið 2009, söluhæstu kvikmyndar allra tíma með 2,9 milljarða bandaríkjadala í heildartekjur.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SAM bíóunum.
Eins og segir í tilkynningunni fór Cameron ekki eins og köttur í kringum heitan graut með þá staðreynd að framleiðsla Avatar: The Way of Water kostaði svimandi háar upphæðir og hún hafi því nauðsynlega þurft að njóta mikilla vinsælda svo vægt sé til orða tekið.
Yrði að ná fimmta sæti
Cameron hefur sagt að Avatar: The Way of Water þurfi að ná því að verða fimmta söluhæsta
mynd allra tíma til þess að skila hagnaði. Einhverjir kvikmyndaspekúlantar telja það þó nokkuð djúpt í
árina tekið hjá honum og telja að myndin þurfi aðeins að ná 1,5 milljörðum bandaríkjadala í tekjur til að skila hagnaði.
Avatar: The Way of Water er hins vegar ekki ýkja langt frá þessu háleita markmiði leikstjórans en á
aðeins 23 dögum var hún þegar orðin 10 söluhæsta kvikmynd sögunnar.
Enn að auka á vinsældirnar
Þann 5. janúar 2023 hafði myndin skilað 1.516 milljörðum bandaríkjadala í kassann og svo virðist sem myndin sé enn að auka á vinsældir sínar á heimsvísu. Avatar: The Way of Water var fljótasta myndin til þess að skila yfir 1 milljarði dala í kassann árið 2022 og varð sömuleiðis aðeins sjötta myndin í sögunni til þess að ná þeirri upphæð á tveimur vikum.
Avatar: The Way of Water er orðin vinsælasta myndin sem frumsýnd var á heimsvísu á árinu 2022. Á
það einnig við um Ísland, en þar náði myndin náði þeim árangri á 17 dögum. Myndin er nú þegar komin vel yfir 40 þúsund manns og miðasalan komin yfir 70 milljónir.