Kvikmyndaleikstjórinn James Cameron, þekktastur fyrir stórmyndirnar Avatar og Titanic, ætlar að gera tvær Avatar framhaldsmyndir, Avatar 2 og Avatar 3.
Cameron tilkynnti þetta í gær ásamt 20th Century Fox kvikmyndaverinu. Frumsýning Avatar 2 er áætluð í desember 2014 og Avatar 3 verður frumsýnd í desember ári síðar, eða 2015.
Það má því segja að desember mánuðir næstu ára séu fullir af fjöri, spennu, ævintýrum og skemmtilegheitum því Peter Jackson hefur þegar áætlað frumsýningar á tveimur myndum um Hobbitann í desember árið 2012 og 2013.
Avatar var frumsýnd 18. desember í fyrra og er orðinn tekjuhæsta bíómynd sögunnar, með 2,8 milljarða Bandaríkjadala í tekjur.
Cameron og stjórnendur frá Fox, þeir Jim Ganopulos og Tom Rothman, sögðu í sameiginlegri yfirlýsingu að þeir áætluðu að hefja framleiðslu myndanna á næsta ári. Engin titill hefur verið ákveðinn á myndirnar ennþá.