Stuttmyndin „Fórn“ eftir Jakob Halldórsson hefur verið valin til að keppa á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Seattle í Bandaríkjunum, Seattle International Film Festival, eða SIFF, í ár.
Jakob, sem bæði er leikstjóri, handritshöfundur og meðframleiðandi Fórnar, segir að kvikmyndahátíðin sé sú stærsta sinnar tegundar í Bandaríkjunum og búist sé við að um 150 þúsund manns heimsæki hana í ár. Hátíðin stendur í 25 daga og hefst þann 16. þessa mánaðar.
„Það var ánægjulegt að komast að á hátíðinni og kom reglulega á óvart,“ sagði Jakob í samtali við kvikmyndir.is. „Ég sótti um eins og allir þurfa að gera, og komst inn. Maður er búinn að sækja um á fullt af hátíðum fyrir myndina og maður fær mörg nei áður en jáið kemur,“ sagði Jakob.
Hann segir að hátíðin sé sú stærsta sem hann hefur komist að á með mynd eftir sig og segir að það geti opnað á ýmsa möguleika að vera kominn þarna inn.“ Þetta getur opnað fyrir því að komast á aðrar hátíðir, að fá þennan stimpil.“
Myndin var sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, sl. haust, á Nordisk Panorama í fyrra, þar sem hún var tilnefnd sem besta stuttmyndin, á Nordisk Filmday í borginni Ljubeck, og þá verður myndin sýnd á Reykjavík Shorts & Docs kvikmyndahátíðinni sem hefst í Reykjavík nú í vikunni. Auk þess var myndin tilnefnd til Eddunnar síðast sem besta stuttmynd.
Fórn fjallar um auðmann sem, ásamt vinum sínum, strandar skútunni sinni á eyðiskeri á flótta með erlendan gjaldeyri úr landi. Hann þarf að taka ákvörðun um hvort hann eigi að kveikja í peningunum sínum eða deyja úr vosbúð og kulda.
Jakob segist vera með mynd í fullri lengd í vinnslu en vill fyrst klára þrjár stuttmyndir, enda sé það nauðsynlegur og góður undirbúningur að gerð lengri mynda. „Ég er með hugmynd að annarri stuttmynd sem ég vil gera og svo er ég að vinna að handriti að mynd í fullri lengd, þannig að það er allt í gangi.“
Um 400 myndir frá 70 löndum eru sýndar á hátíðinni í Seattle og Jakob segir að þær myndir sem bera sigur úr býtum á hátíðinni veljist inn í Óskarstilnefningar næsta árs.
Leikstjórn og handrit er í höndum Jakobs Halldórssonar eins og fyrr sagði. Leikarar eru Björn Hlynur Haraldsson, Víkingur Kristjánsson og Þorbjörg Þorgilsdóttir.
Framleiðendur eru Jakob Halldórsson, Kristinn Þórðarsson, Magnús Viðar Sigurðsson, Kjartan Þór Þórðarsson og Margrét Jónasdóttir.
Hér fyrir neðan má skoða stiklu fyrir Fórn: