Atriði vikunnar – Rokk í Reykjavík

Ég ætla nú ekki að hafa mikið af atriðum úr heimildamyndum og einblína frekar á leiknar kvikmyndir. Atriði þessa vikuna er þó úr heimildamynd, og allt í besta lagi með það bara.


Rokk í Reykjavík er ein af fyrstu verkum Friðriks Þórs. Hún kom út árið 1982 og er samansafn af upptökum valdra hljómsveita með stuttum viðtölum inn á milli. Eftir heimsfrægðina sem Björk hlaut stuttu síðar hefur fólk frá öllum heimshornum leitað þessa mynd uppi. Við Íslendingar höfum flest smá forskot á þau, því það er aðeins auðveldara að ná í hana hér. Þó hef ég ekki séð hana til sölu hér í mörg ár og er í staðinn hægt að finna hana á vel völdum videoleigum.

Atriðið sem ég valdi finnst mér athyglisvert að því leiti hvað Bubbi kemur með merkilegar hugmyndir um rokkið sem var á þeim tíma í Reykjavík. Eftir það kemur hljómsveitin Q4U með lagið Creeps og með óborganlegt veggjakrot. Helst hefði ég viljað velja fleiri atriði, og það gæti vel verið að ég geri það um næstu áramót. En þangað til mæli ég með að þið grafið þessa mynd upp og sjáið fleiri Bubba ræður og Björk syngja sína fyrstu tóna inn í frægðina.

Fyrir næstu viku hef ég valið atriði úr kvikmyndinni Ingaló.