Í Bandaríkjunum hafa verið uppi vangaveltur um það síðustu mánuði að leikkonan Ashley Judd ætli sér að gerast stjórnmálamaður og komi til með að sækjast eftir sæti Kentucky ríkis á Bandaríkjaþingi árið 2014.
Nú hefur Judd slegið opinberlega á þær vangaveltur og sagt að hún ætli sér ekki að sækjast eftir þingsætinu. „Eftir að hafa velt þessu vandlega fyrir mér, þá tel ég að ég þurfi á þessum tímapunkti í lífi mínu að einbeita mér að fjölskyldunni,“ sagði Judd á Twitter síðu sinni, en Judd er í sviðsljósinu í Bandaríkjunum þessa dagana þar sem hún leikur eitt aðalhlutverkanna í Olympus has Fallen, sem frumsýnd var um síðustu helgi og fékk góðar viðtökur.
„Því miður, þá er ég á þessari stundu ófær um að berjast fyrir sæti á Bandaríkjaþingi. Ég hef rætt við mjög marga íbúa í Kentucky síðustu mánuði sem sögðu að fólkið þarfnaðist baráttumanns á þing og nýjan leiðtoga,“ sagði Judd einnig. „Þar sem það mun ekki verða ég í þetta sinn, þá mun ég halda áfram að vinna eins og ég mögulega get að því að fjölskyldur í Kentucky fái þingmann sem vinnur fyrir fólkið og þarfir þeirra. Takk fyrir að horfa á mig með þetta í huga og viðurkenna hve mikið ég elska ríkið okkar. Takk fyrir!“
Heimildir herma að leikkonan hafi alvarlega verið að íhuga að fara út í kosningabaráttu til að berjast fyrir sætinu. Judd, sem er demókrati, hefði þá hugsanlega þurft að berjast um sætið við repúblikanann Mitch McConnell.
Fyrr í mánuðinu sagði The Huffington Post frá því að Judd væri að ráðfæra sig við almannatengslaráðgjafa og skipuleggjendur, og aðstoðarmenn hennar væru byrjaðir að fylla út öll gögn sem þyrftu að fylgja framboði hennar.