Arnold hugar að endurkomu í kvikmyndir – en vill bjarga heiminum líka

Fyrrum kvikmyndaleikarinn og fráfarandi ríkisstjóri Kaliforníu, Arnold Schwarzenegger, 63 ára, segist vera að skoða hvað hann muni taka sér fyrir hendur þegar hann lætur af störfum í janúar nk. Hann segir að það komi til greina m.a. að snúa aftur til hasarmyndanna, sem hann er þekktastur fyrir.
Arnold, sem lék gestahlutverk í mynd Sylvester Stallone The Expendables sl. sumar, sagði: „Það gæti verið að ég myndi einbeita mér að því að berjast gegn lofslagsbreytingum. En það gæti einnig verið að það yrði eitt af fimm verkefnum sem ég myndi einbeita mér að. Ég gæti farið aftur í skemmtanabransann. Eða ég gæti einfaldlega bara snúið mér að viðskiptum.“
Arnold hefur notið velgengni í þremur mismunandi starfsferlum, í kvikmyndum, stjórnmálum og vaxtarrækt. Hann segir sjálfur að hann hafi náð árangri þar sem að hann viti hverjir hans styrkleikar eru: „Allt mitt líf hef ég verið mjög metnaðargjarn, en hafði samt vit á að átta mig á í hverju ég var sterkastur, hvað hef ég fram að færa. Síðan að notfæra mér það.“
Ásamt því að hugleiða að snúa sér aftur að leiklist, þá er Arnold að setja af stað alheimsátak gegn loftslagsbreytingum og viðurkenndi að þó að það sé erfitt að beina athygli manna að því málefni, þá sé hann með hernaðaráætlun. „Þú verður að gera það spennandi, töff og kúl.“
Hann bætti við: „Ég held að ég hafi hæfileika til að tala á þann hátt sem nauðsynlegur er til að heimurinn skilji, í stað þess að gera þetta of flókið.“