James Wan, leikstjóri ofurhetjumyndarinnar Aquaman, sem væntanleg er í bíó árið 2018, segir að Aquaman, sem er upprunninn úr heimi DC Comics teiknimyndasagna, sé Wolverine DC heimsins.
Aquaman er krefjandi persóna fyrir kvikmyndagerðarmanninn, þar sem hann er konungur goðsagnakenndrar eyju og getur talað við dýr undirdjúpanna.
IGN vefsíðan birti á dögunum stutt spjall við Wan um líkindin á milli Aquaman og Wolverine, sem er Marvel ofurhetja sem komið hefur fram í nokkrum ofurhetjumyndum.
„Ég held að það hafi verið snilldarlegt hjá Zack [Snyder leikstjóra Justice League ] að ráða Jason [ Momoa ] í hlutverkið,“ sagði Wan við IGN. „Samstundis þá hverfur allt sem er hægt að gera grín að varðandi persónuna, út um gluggann. Þarna ertu með vöðvastælta ofurhetju og einhverja sem er, á margan hátt … ég horfi á hann, og hann er eins og Wolverine að nokkru leiti. Hann stendur fyrir utan þennan heim og dregst inn í hann og hann langar samt eiginlega ekki að tilheyra honum, og hann hafði nóg með sitt. Og frelsið er honum mikilvægt. Hann er svona eins og ofurhetja treg í taumi, ekki satt? Hann er kóngur, tregur í taumi, í raun og veru, eða verðandi kóngur.“
Það sést stuttlega í Aquaman í fyrstu stiklunni fyrir Justice League, sem frumsýnd var á dögunum á Comic-Con afþreyingarhátíðinni í San Diego í Bandaríkjunum.
Þar má einmitt sjá þetta hik sem er á honum í samskiptum sínum við Batman.
Við sjáum Aquaman þann 17. nóvember á næsta ári í Justice League.