Illmenni næstu Star Trek myndar viðist vera fundið, en Benedict Cumberbatch er sagður hafa hreppt hlutverkið sem Benicio del Toro og Carlos Ramirez höfðu áður verið orðaðir við. Því miður er lítið annað vitað um hlutverkið, en einhverntíman gáfu handritshöfundar þá vísbendingu að búast mæti við kunnulegri persónu úr upprunalegu þáttunum, og eftir það hafa orðrómar haldið því fram að Khan Noonien Singh láti sjá sig (sem einnig var stór persóna í Star Trek II: The Wrath of Khan). Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það, en þeir del Toro og Ramirez hefðu allavega passað umtalsvert betur í það hlutverk en Cumberbatch.
Cumberbatch er sennilega þekktastur fyrir titilhlutverkið í BBC þáttunum Sherlock sem fengið hafa mikið lof, en þeir sýna nútímaútgáfu af persónum Arthur Conan Doyles. Þykir kunnugum þættirnir vera besta Sherlock Holmses efnið sem sést hafi í áraraðir, kvikmyndirnar með Downey Jr. meðtaldar. Þá er hann einnig áberandi í nokkrum væntanlegum myndum, War Horse eftir Spielberg, Tinker Tailor Soldier Spy með Gary Oldman, og loks í Hobbitamyndunum (eða allavega annari þeirra) þar sem hann mun talsetja drekan Smaug.
En Cumberbatch er ekki eina breska sjónvarpsstjarnan til að bætast í leikhópinn, því á dögunum var tilkynnt að Noel Clarke sem farið hefur með hlutverk Mickey í þáttunum um Doctor Who myndi leika fjölskyldumann með unga dóttur. Það segir okkur náttúrulega ekki neitt, en hann verður allavega í myndinni. Þeir bætast í hóp Alice Eve og Peter Weller og alls leikhópsins úr fyrstu myndinni.
Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð Sherlock (þó það sé á dagskrá), og lítið af öðrum verkum Cumberbatch, þannig ég get ekki fullyrt að hann sé frábær valkostur. En þeir sem þekkja til hans virðast gera það, þannig að ég treysti því mati þangað til annað kemur í ljós. Einhver sem er ósammála því?