Sir Ian McKellen, hinn virti leikari, var bólusettur í gær vegna Covid-19 og þar af leiðandi með fyrstu frægu einstaklingum til að hljóta slíkt. Kveðst hann vera mjög heppinn og hikar ekki við að mæla með bóluefninu frá Pfizer fyrir alla.
McKellen, sem er 81 árs, er þekktastur fyrir túlkun sína sem Gandálfur úr Hobbitanum og Hringadróttinssögu ásamt þorparanum Magneto úr X-Men myndunum. Auk þess hefur hann leikið í mörgum Shakespeare leikritum, meðal annars Othello og Macbeth. Árið 1991 var hann aðlaður af Bretlandsdrottningu.
„Fólk sem hefur lifað jafn lengi og ég eru öll á lífi af því þau hafa fengið bólusetningar á ævi sinni,“ sagði leikarinn alsæll á Twitter. Á dögunum hófst bólusetning í Bretlandi og er eldra fólk og fólk sem býr á hjúkrunarheimilum í fyrstu forgangshópunum.