Það er búið að vera afskaplega langur og flókinn undirbúningur að gerð kvikmyndarinnar I Am Legend. Upphaflega, á því herrans ári 1997, ætlaði Ridley Scott að leikstýra myndinni, en hún er endurgerð The Omega Man með Charlton Heston, og þá með Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverki. Síðan hætti Scott við, en Ahnuld vildi enn leika aðalhlutverkið. Það var hann sem þróaði verkefnið, sem fjallar um einn af þeim fáu sem lifði af Ragnarökin, og berst hann við uppvakninga sem vilja nærast á kjötmiklu holdi hans. Það var um þetta leiti sem leikstjórinn/uppvakningurinn Michael Bay og Ali sjálfur, Will Smith komust í handritið. Þeir urðu skyndilega áfjáðir mjög í að vinna að þessu verkefni saman, en Ahnuld var ekki hrifinn af því að færa sig til hliðar. Warner Bros., fjármagnið í dæminu, vildu samt sem áður ýta honum vinalega til hliðar, enda er Ahnuld óhemju dýr í rekstri og hefði viljað eitthvað um 30 milljónir dollara fyrir ómakið. Warner vildi frekar Bay/Smith samsetninguna, en vissu ekki hvernig þeir ættu að færa Ahnuld til hliðar án þess að hann færi í fýlu því hann er jú enn ein af aðal reiðufjárkúm (cash cow?) Warner. Málið hefur nú verið leyst á farsælan hátt fyrir alla aðila. Bay leikstýrir, Smith leikur aðalhlutverkið og Ahnuld framleiðir myndina. Hann fær að auki bæði King Conan, þriðju Conan myndina en hún er gamalt draumaverkefni hans og endurgerðina að Westworld. Þetta verða hans næstu tvö verkefni eftir að tökum á Terminator 3: Rise Of The Machines lýkur. Þar með er málið í höfn og vonandi gengur það eftir að I Am Legend verði gerð áður en við verðum öll gráhærð.

