Matt Damon minnkunar vísindaskáldsagan Downsizing er væntanleg í bíó hér á Íslandi þann 12. janúar nk. og miðað við stiklu í fullri lengd sem er nýkomin út, þá er óhætt að byrja að hlakka til.
Hugmyndin á bakvið kvikmyndina er sú spurning hvort þú værir til í að láta minnka þig niður í stærð eldspýtnastokks, ef það þýddi að þú gætir orðið ríkur á því? Eins og fram kemur í stiklunni þá er minnkunaraðgerðin endanleg og óafturkræf, en gulrótin er ansi kitlandi, allar eigur þínar í fullri stærð, margfaldast þegar þú ert orðin/n minni, enda er eðlilega allt ódýrara sem er minna. Eins og sést í lok stiklunnar endist til dæmis vodkaflaska von úr viti! En ekki er allt gull sem glóir.
Leikstjóri er Alexander Payne, sem þekktur er fyrir kvikmyndir eins og Sideways, Nebraska og The Descendants.
Hér er opinber söguþráður:
Í Dowsizing er reynt að bregða upp mynd af því, sem lausn á offjölgun í heiminum, þegaer norskir vísindamenn uppgötva hvernig hægt er að minnka mannfólk niður í rúmlega 10 sm stærð, og markmiðið er að innan 200 ára verði allir menn orðnir þetta litlir. Fólk áttar sig fljótt á því að hvað peningarnir endast vel þegar heimurinn hefur skroppið svona saman, og meðaljóninn Paul Safranek, sem Matt Damon leikur, og Audrey kona hans, sem Kristen Wiig leikur, falla fyrir þessum gylliboðum, og yfirgefa stressið í Omaha, smækka sig og flytja í smækkaðan heim. Þetta á svo eftir að hafa ýmis ævintýri í för með sér.
Hér fyrir neðan er plakat og stiklan er þar fyrir neðan: