Alkemistinn verður bíómynd

Framleiðslufyrirtækin TriStar og PalmStar ætla að gera kvikmynd eftir sígildri metsölubók Paulo Coelho, The Alchemist, sem kom út á Íslandi í þýðingu Thors Vilhjálmssonar undir nafninu Alkemistinn, og varð mjög vinsæl.

the-alchemist

Meira en 65 milljón eintök hafa selst af bókinni um allan heim, sem þýðir að bókin er á topp 10 listanum yfir best seldu bækur allra tíma.  Bókin hefur verið þýdd á 80 tungumál.

„Ég er spenntur fyrir því að vinna með PalmStar við Alkemistann. Eins og flestir aðdáendur bókarinnar, þá man ég hvar ég var stödd þegar ég las bókina fyrst,“ sagði Hannah Minghella í frétt Variety, sem mun hafa yfirumsjón með verkefninu fyrir TriStar. „Þetta er saga sem ég hef lesið oftar en einu sinni, og það hefur verið draumur minn lengi að gera kvikmynd eftir þessari töfrandi og ævintýralegu bók.  Það er auðvelt að sjá afhverju sagan hefur verið svona vinsæl, og við ætlum okkur að gera kvikmynd sem nær að fanga kraftinn í bókinni.“

Á vef Forlagsins má finna eftirfarandi söguþráð fyrir Alkemistann: „Santiago hefur í draumi fengið upplýsingar um fjársjóð sem kann að bíða hans í pýramídunum í Norður-Afríku og leggur því af stað frá heimalandi sínu fullur væntinga um veraldlegan auð. Á leið hans yfir eyðimörkina verður margt á vegi hans, meðal annars ung og undurfögur sígaunakona, gamall konungur og alkemisti. Hvert og eitt þeirra færir Santiago nær fjársjóðnum sem enginn veit hver er. Santiago leggur af stað sem ungur og ævintýragjarn drengur í leit að veraldlegum fjársjóði en uppgötvar á leið sinni æ dýrmætari fjársjóði hið innra.“