Kvikmyndaleikarinn Andy Serkis segir í samtali sem framleiðendur hafa dreift til fjölmiðla vegna nýju Batman myndarinar, The Batman, sem frumsýnd verður 4. mars nk., að hann og leikstjórinn Matt Reeves þekkist vel frá því þeir gerðu Apamyndirnar svokölluðu ( Planet of the Apes ofl. ). Þar hafi þeir mikið rætt saman um feðgasambönd. “Þannig að þegar kom að því að ráða í The Batman og hann bað mig að leika Alfred Pennyworth, þá var það það sem tengdi okkur saman. Það snerist að miklu leiti um hvernig Alfreð við vildum búa til.“
Alfreð er einkaþjónn og besti vinur Leðurblökumannsins en einnig nokkurskonar föðurímynd.
Spurður að því hvernig Alfreð sé öðruvísi í nýju myndinni en í fyrri Batman myndum segir Serkis að Alfreð rogist með mikla byrði. Hún sé sú að hann viti að hann geti aldrei orðið faðirinn sem hann veit að Batman þarfnast. Hann viti að, á sama tíma og hann burðast með sektarkenndina yfir því að hafa ekki verið til staðar þegar faðir Bruce var myrtur, þá hafi hann það ekki í sér að vera föðurleg fyrirmynd. “Ég held að það sé hið harmræna við persónuna.”
Með bakgrunn úr hernum
Spurður að því hvort hann telji að Bruce sé enn í þeim uppreisnarhug sem flestir ganga í gegnum, vegna þess að barnaæska hans fór öll í rugl útaf þessu eina hræðilega atviki, játar Serkis því. “Alveg pottþétt,” segir hann.
Einnig segir hann að þeir Reeves hafi ákveðið að láta persónuna hafa bakgrunn úr hernum. Hann hafi verið í sérsveitunum, en slasast þar, og í myndinni er hann látinn ganga við staf, vegna meiðslanna. Hann beri þannig bæði líkamleg og andleg ör.
Leysa saman dulmál
Serkis segir að það sem bindi Batman og Alfreð saman séu hæfileikar þeirra beggja til að leysa dulmál.
“Það er eins og þegar faðir situr hjá syni sínum og þeir byggja módel saman. Þetta er eins og tómstundagaman sem tengir þá saman.”
Einstakur leikari
Um samstarfið með Robert Pattinson, sem leikur Batman, segir Serkis að hann sé einstakur leikari. Hann hafi gert hinar hrikalega vinsælu Twilight myndir en farið svo út í að leika í sjálfstæðum myndum, frábær hlutverk, sem hafi verið mikil áskorun fyrir hann. “Hann ber sársauka Bruce svo fallega og hann nær að draga þennan heim inn í sig. Það er hreinlega geggjað að vinna með honum. Hann er skemmtilegur maður sem nýtur sín á tökustað. Þannig að þetta var töfrandi reynsla. Ég elskaði að vinna með honum og myndi ekki hugsa mig tvisvar um ef mér byðist að vinna með honum aftur.”
Tilfinningarík mynd
Spurður um hvað hann voni að áhorfendur upplifi við að sjá myndina segir Serkis að hann haldi að bíógestir komi til með að sjá Batman mynd sem er rík af tilfinningum. Áhorfendur eigi líka eftir að heillast af sviðsmyndinni og Gotham borg eins og hún lítur út í myndinni.
“Svo er þetta frábær og lagskiptur spennutryllir, sem gerir myndina að algjörri veislu,“ segir Serkis að lokum.